Thursday, February 18, 2010

Umræðuhefð Vantrú

Ég asnaðist til að fara inná heimasíðu Vantrúar um daginn og leggja þar orð í belg sem voru mikil mistök. Trúleysingjar hafa komið fram með mikilvæga gagnrýni á trúarsamfélög og stofnanir samfélagsins. Hér á Íslandi má þakka Siðmennt fyrir mikið af þeirri gagnrýni. Því miður hafa samtök sem hafa verið nokkuð hávær á netmiðlum landsins verið einhver sýnlegasti aðilinn í baráttu trúleysingja. Þemað hjá þeim þessa dagana hefur verið að gagnrýna aðferðir og nálgun kennara við Guðfræðideild Háskóla Íslands. Að sjálfsögðu er það mjög jákvæður hlutur að trúleysingjar taki þátt í akademískri umræðu en því miður virðist vantrú ganga afar illa að koma boðskap sínum á framfæri.

Það virðist vera skrýtin umræðuhefð á vantrú.is (ef umræðuhefð skyldi kalla), þó taka skuli fram að það sé misjafnsauður í mörgu fé. Þeir hafa það að sið að reyna að ögra fólki sem er að sjálfsögðu gott að blessað en við þær greinar sem ég hef skoðað þarna inni verður umræðan ávallt marklaus og innihaldslítil. Það er sterk hefð fyrir því inná vantrú og hjá meðlimum samtakanna að verja allt í gröfina sem þeir setja þar inn og slá um sig með hugtökum sem þeir virðast oft á tíðum hafa lítinn sem engan skilning á. Sem dæmi nefni ég eina grein þeirra um afstæðishyggju sem má sjá hér þar er umfjöllunarefnið Kirkjan og afstæðishyggja. Við lestur greinar kemur fljótlega í ljóst að skilningur höfundar á afstæðishyggju er afar lítill og það er erfitt að átta sig á hvað hann er að fara. En í umræðum fyrir neðan greinina kemur þó fljótlega í ljós að höfundur var að einhverju leiti að fjalla um annað hugtak, tilvistarstefnuna, eins og vökull lesandi bendir honum á. Í stað þess að viðurkenna mistök sín og leiðrétta þau þá upphefst afar skrítin vörn þar sem misgáfulegar skoðanir koma fram en með því að bulla sig áfram gefast þeir í raun upp sem hafa reynt að gagnrýna þá, þó svo að sú gagnrýni sé réttmæt, og yfirgefa svæðið. Eftir stendur fáránleg grein þar sem að augljósustu villunum er ekki einu sinni breytt.

Það að verja sinn málstað/framsetningu til dauða er ekki uppbyggileg leið til að koma boðskap sínum áframfæri en þetta virðist vera nokkuð ráðandi viðhorf á vantrú og háir þeim samtökum mikið. Engin furða að þeir virðist ekki geta komið miklu til leiðar og það vekur jafnvel upp spurningu um hvort það væri yfirhöfuð æskilegt að hlusta á þá.

Það má ekki taka það af vantrúarmönnum að hugmyndir þeirra eru góðra gjalda verðar. Það er afar mikilvægt að engin stofnun samfélagsins sé hafin yfir gagnrýni og það á við um Þjóðkirkjuna eins og aðrar stofnanir. Ef gagnrýnin á að vera marktæk og trúverðug er nauðsynlegt að hún fari fram á málefnalegum nótum og sé skýr og skilmerkileg. Umræða þar sem hugtakanotkun er á floti, mistök eru ekki viðurkennd (og enn síður lagfærð) og tilraunum til umræðu er eytt með útúrsnúingi eða þvermóðsku er ekki vel til þess fallin að skila árangri, sama hversu verðugur málstaðurinn er. En þetta er að mörgu leyti vandmálið við umræðuhefðina á Íslandi.